-Auglýsing-

Vinna og veikindi: Er vinnusemi dyggð?

Nanna og FúsiÞegar veröldinni er snúið á hvolf á augnabliki og við taka veikindi sem standa yfir svo mánuðum skiptir breytist lífið. Þetta er frábær pistill frá henni Nönnu hans Fúsa þar sem hún veltir upp áhugaverðum spurningum um vinnuna og veikindin.

Vinnusemi er íslensku þjóðinni í blóð borin og samofin íslensku þjóðarsálinni, við Íslendingar teljum okkur duglegt fólk og státum okkur oft svolítið af því. Sjálf er ég alin upp við mikla vinnusemi, trúlega vegna þess að foreldrar mínir þekktu ekki annað, enda frekar venjulegt alþýðufólk, mamma elst í stórri fjölskyldu þar sem móðirin var sjúklingur og mamma varð ung að axla mikla ábyrgð, nám eiginlega ekki í boði og pabbi úr sveit og lærði pípulagnir þótt hugur hans stæði til læknisfræði.

Hann pabbi minn fæddist árið 1933 og kenndi sér fyrst hjartameins 1988 eða 1989. Glöggir lesendur reikna fljótt út að þá var hann 55-56 ára gamall. Þeir sem til okkar hjóna þekkja vita að maðurinn minn var 55 ára þegar hann veiktist í vor. Veikindi pabba voru mjög áþekk veikindum mannsins míns og ekki laust við að ég hafi upplifað býsna sterkt endurlit því ég man mjög glöggt líðan foreldra minna þegar pabbi veiktist.

Hann pabbi minn var sjálfstætt starfandi iðnaðarmaður, vann alla tíð líkamlega erfiðisvinnu og átti enga veikindadaga. Ég sé það núna, þegar ég hugsa til baka, að hann hefur farið alltof snemma að vinna eftir sín fyrstu veikindi, og alls ekki hlíft sér sem skyldi sem ég held, án þess að vera sérfræðingur, að hafi að minnsta kosti átt sinn þátt í í langvarandi veikindum hans, þótt ekki sé meira sagt. Við tók vegferð foreldra minna í gegnum veikindi pabba, vegferð sem minnir á svo ótrúlega marga vegu á rússíbanareiðina sem við fjölskyldan höfum verið í þetta langa sumar sem engan enda virtist ætla að taka.

Pabbi fór í þræðingar og opna aðgerð og alltaf var bjartsýnin með í farteskinu, þetta hlyti nú að fara að koma, nú væri þetta allt að lagast. Bakslögin voru hins vegar mörg, sporin oft þung og vonbrigðin gífurleg. Smám saman dró úr bjartsýninni og síðasta árið urðum við vör við að pabbi var hættur að tala um allt það sem hann ætlaði að gera þegar batinn yrði meiri. Pabbi lést í apríl 2002, 69 ára gamall, eftir 13-14 ára þrautagöngu og baráttu við hjartasjúkdóm sinn. Þessi hrausti, vinnusami maður laut í lægra haldi fyrir sjúkdómnum sem maðurinn minn glímir nú við. Aðstæður þeirra eru ólíkar en eitt er þó líkt;  þeir unnu báðir gífurlega mikið, enda ekki annað í boði fyrir bara svona venjulegt fólk. Þannig er þetta líf nú einu sinni.

Minn maður veiktist, fékk hjartaáfall/blóðtappa/kransæðastíflu á sumardaginn fyrsta. Hann er svo heppinn að hafa góðan veikindarétt í gegnum sitt stéttarfélag, bundinn við starfsaldur, og við höfum því ekki þurft að hafa verulegar áhyggjur af þeim þætti lífs okkar til þessa, þótt sannarlega hafi nú gengið á ýmsu með annað.

- Auglýsing-

Fyrstu vikurnar var hann svo veikur að vinna var ekkert í myndinni og sérfræðingurinn sem við völdum okkur sagðist strax sjá fyrir sér að við létum sumarið líða í endurhæfingu og sæjum til með upphaf vinnu með haustinu. Svo fór nú Eyjólfur að hressast, eins og sagt er, og eftir því sem á leið sumarið heyrðist æ oftar úr ýmsum áttum að hann gæti nú bara farið „að vinna í næstu viku eða þar næstu, það væri svo gott að fara að vinna, þá væri hann ekki svona einn á báti, gott fyrir andlegu hliðina“. Og svo ótrúlega margt framvegis í þessa áttina, bæði frá heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum. „Byrjarðu ekki bara 1. september? Fer ekki að styttast í þetta hjá þér?“ Vissulega hefur hann þann djöful að draga að líta bara bragglega út, útitekinn og svolítið sólbrúnn eftir gönguferðir sumarsins, ótrúlegt en satt – búandi á Reykjavíkur-rigningarsvæðinu –  enda á fólk bágt með að trúa því hvað hann er búinn að vera veikur. En dæmum ekki hundinn af hárunum, gott fólk.

Ég vil nefna nokkur atriði í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er eitt að fara í hjartaþræðingu sem öryggistékk og allt í lukkunnar velstandi, engin stífla, ekkert þarf að gera og allt í góðu. Þá máttu ekki reyna á höndina í 4 daga, en getur farið í vinnu eftir u.þ.b. viku ef læknirinn þinn er rausnarlegur. Það er annað að fá fullorðins hjartaáfall, hjartabilun og alvarlegan eftirleik í kjölfarið. Þá verður fólk að bíða og sjá, ég tala nú ekki um ef lyfseðlar klúðrast og blóðþrýstingurinn er eins og í kirkjugarði svo vikum og mánuðum skiptir, vatn safnast við lungu, hiti rýkur upp og menn geta ekki staðið upp hjálparlaust. Þá verða menn að bíða leeengi og sjá og þá er nú gott að eiga að góðan sérfræðing sem ekki liggur á að reka menn til vinnu.  Í þriðja lagi er svo það að lenda í annarri umferð af svona skemmtilegheitum, þá er nú dálítið miklu betra að vara sig og vanda ef maður ætlar að lifa eitthvað ögn lengur. Ef það væri nú ríkið, vinnuveitandi læknanna, sem borgaði veikindadaga mannsins míns myndi ég mögulega skilja þessa ofuráherslu á að hann færi að vinna aftur. En þar sem það er hans ágæti vinnuveitandi, Síminn, sem heiðrar sína kjarasamninga með sæmd með dyggum stuðningi yfirmanna, er þetta mér algerlega óskiljanlegt.

Í síðari hálfleik meðferðar mannsins míns á Reykjalundi sem hófst eftir verslunarmannahelgi var talað um að nú gæti hann bara farið að vinna, drífa sig að fara að vinna. Í sama hálfleik hafði æðin hans stíflast aftur en ekkert mark var tekið á umkvörtunum um verki. „Þú getur bara farið að vinna eftir viku“, var sagt við útskrift af Reykjalundi 15. ágúst, þótt þolpróf daginn áður hefði ekki komið vel út, og eins og eftir átti að koma í ljós var komin önnur stífla, á sama stað og áður. Ég þakka mínum sæla fyrir að hafa dregið lappirnar með að hann færi til vinnu fram yfir sérfræðingsheimsókn í lok ágúst, en sérfræðingurinn bað hann þá blessaðan að bíða rólegan með allar vinnupælingar fram yfir nýja þræðingu og sjá hvað út úr henni kæmi, því augljóslega væri eitthvað skrítið í gangi. Það hefði verið lítið stuð í því að vera nýbyrjaður að vinna og vera þá kippt úr sambandi á nýjan leik, svona einhvern veginn bara svolítið minna gaman, og þá hefði nú líklega lítið farið fyrir andlegri styrkingu fylgjandi því að vera kominn til vinnu á ný.

Aftur fór hann í þræðingu 9. september, nýja stíflan var rekin burt og aftur sagði vakthafandi sérfræðingur sem útskrifaði að hann gæti farið að vinna viku síðar þótt blóðþrýstingurinn væri 98/62. Það var ekki fyrr en ég hvessti illyrmislega á hann augun að hann sagði: „Eða tvær“.

Ég endurtek og er algerlega á því að vinnusemi sé góð og vinnusemi sé dyggð, upp að vissu marki, það er gott að vera í góðri vinnu og finna að maður sjái fyrir sér og sínum. Því miður eru ekki allir svo heppnir. Við höfum alið börnin okkar upp við þau gildi, að gott og nauðsynlegt sé að vinna til að sjá fyrir sér og finna til sín sem nothæfs þegns í samfélaginuog fjölskyldunni.

En sé vinnusemin og áherslan á hana orðin vafasöm og hæpin fyrir heilsu manna, og  ef ýtni ákveðinna lækna og fagfólks innan heilbrigðisgeirans til að koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn jaðrar við að vera varasöm er ástæða til að staldra við og þegar menn þurfa stuðning milli stóla til að fá ekki svima er enn frekari ástæða til að staldra við og hugsa málið upp á nýtt. Á þessi einstaklingur erindi til vinnu að sinni? Er eitthvað sem þarf að skoða frekar áður en til þess kemur?

Vissulega er gott að tapa ekki tengingunni við vinnustaðinn og félagana, og í veikindaferli mannsins míns hefur mikil áhersla verið lögð á það, en líkamleg heilsa verður þó og hlýtur að vega þyngra en sú tenging, og það hlýtur að vera forgangsmál að henni sé náð áður en fólk er sent til vinnu hvað sem raular og tautar, annars er verr af stað farið en heima setið. Einstaklingur sem ekki hefur náð fullri líkamlegri heilsu er hvort eð er ekki í nokkru ástandi til að nýta sér tenginguna við vinnustaðinn og félagana og allt það „góða fyrir andlega þáttinn“ og upplifir það allt saman mögulega sem andlegt og líkamlegt áreiti og stórkostlegan streituvald, (sem hingað til hefur nú ekki verið talið heppilegt fyrir hjartveika), að vera kominn aftur til starfa áður en hann er tilbúinn til þess.

Ég heyrði hins vegar fyrir skemmstu í fyrsta sinn skýringu á þessari ríku áherslu manna á vinnuþáttinn og það frá starfsmanni heilbrigðisgeirans, og hún var sú að fólk vildi gjarnan fara snemma til vinnu „af því það kviði gjarnan svo fyrir því“.  Það er allt gott og blessað og getur mögulega átt við í sumum tilfellum en mér hefur nú heldur fundist pressan vera af hálfu kerfisins en sjúklinganna þar sem ég þekki til og er nú búin að fara all ítarlega í gegnum þetta veikindaferli í sumar með mínum manni. Við höfum aldrei upplifað minnstu pressu af hálfu vinnuveitanda en hún hefur hins vegar verið býsna afgerandi af hálfu heilbrigðiskerfisins, sem er í eðli sínu öfugsnúið.

- Auglýsing -

Ég hefði frekar selt húsið, bílinn, fellihýsið og… kannski ekki afkvæmin okkar, enda hef ég ekkert yfir þeim að segja lengur, en að maðurinn minn færi of snemma til vinnu og koksaði svo á fyrstu eða annarri vikunni. Hverjum er greiði gerður með því? Ekki honum, ekki vinnuveitandanum og þá ekki mér.

Hann fór hins vegar til vinnu í vikunni eftir hálfs árs fjarveru vegna sinna veikinda og vinnur fyrst um sinn hálfan daginn sem er miklu meira en kappnóg fyrir hann að sinni. Úthaldið er takmarkað og endurhæfingin í HL-stöðinni tekur líka sinn toll, svo það verður ekki sagt að minn maður sé til stórræðanna sem stendur, alveg á hreinu að Esjan bíður um sinn, og ótrúlega margt annað líka. Svo verður hins vegar tíminn að leiða í ljós hvert úthaldið verður, hvernig það vex og hvað framhaldið leiðir í ljós. Að mínu viti var ekki komið að þessu en ég er náttúrulega hvorki sjúklingur né sérfræðingur, heldur bara klappstýran káta á kantinum sem er að byrja að verða þreytt á að fá alltaf bara afgangana af manninum sínum.

Við Íslendingar mættum kannski almennt, og þá ekki síst heilbrigðis- geirinn, reyna að tileinka okkur betur þann bara býsna skynsamlega hugsunarhátt og lífsmáta að fólk vinni til að lifa, en lifi ekki til að vinna.

Klisjan sem sannaðist í tilfelli föður míns og klárlega svo ótal margra annarra, er á þá leið að hafirðu ekki tíma fyrir heilsuna núna, þá er ekki víst að þú hafir heilsu fyrir tímann síðar. Og það er sannarlega hverju orði sannara.

Nanna Gunnarsdóttir
hjartamaki.

Hér er tengill á pistilinn hennar Nönnu þar sem hún skrifar um veikindinn. 

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-